Stóriðjuskóli Norðuráls

  

Norðurál hefur starfrækt stóriðjuskóla frá árinu 2012. Markmiðið er að þeir starfsmenn fyrirtækisins sem ljúka náminu öðlist meiri starfsánægju og sjálfstraust með aukinni færni, þekkingu og skilningi á lykilferlum við örugga og hagkvæma framleiðslu á áli.  Að sama skapi eykur námið verðmætasköpun, styrkir samkeppnisstöðu fyrirtækisins og gerir vinnustaðinn eftirsóknarverðari.  

 

Boðið er upp á grunn- og framhaldsnám við skólann sem hvort spannar þrjár annir. Grunnnámið er fyrir ófaglærða starfsmenn. Framhaldsnámið er ætlað iðnaðarmönnum og þeim sem hafa útskrifast úr grunnnáminu.

Skólinn er rekinn í samvinnu við Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi, kennarar við Fjölbrautaskóla Vesturlands taka þátt í kennslunni sem og sérfræðingar Norðuráls. Við útfærslu á náminu er stuðst við Námsskrá um nám í stóriðju, sem gefin er út af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

 

Námsefnið hefur  verið lagað að þörfum fyrirtækisins og þeim búnaði sem þar er. Því má segja að daglegum viðfangsefnum nemenda sé ofið inn í námið. Sem dæmi um námsefni í Stóriðjuskólanum má nefna námstækni og samskipti, öryggismál, stærðfræði, tölvur, vélfræði, eðlisfræði, efnafræði; rafefnafræði, umhverfismál, eldföst efni og gæðastjórnun.

 

Námsárangur nemenda hefur verið góður, sérstaklega með tilliti til þess að margir þeirra hafa ekki verið í skóla svo áratugum skiptir. Það hefur sýnt sig að námið styrkir ekki aðeins starfsfólk Norðuráls í starfi heldur hefur það líka eflt þau til að sækja sér frekari menntun.

Framhaldsskólinn metur nám við Stóriðjuskóla Norðuráls til eininga þar sem það nýtist til stúdentsprófs eða iðnnáms.