Notkun áls

Notkun áls hefur vaxið jafnt og þétt undanfana áratugi og eru möguleikarnir margvíslegir. Stærstur hluti þess áls sem framleitt er fer í farartæki, byggingar og umbúðir.. Eftirspurn eftir áli meðal farartækjaframleiðenda hefur aukist vegna þess að styrkur miðað við þyngd  þess dregur úr orkunotkun og þar af leiðandi úr mengun. Óhugsandi væri að smíða flugvélar sem gætu borið meir en 30 manns úr öðrum efnum heldur en áli og/eða trefjaefnum.  Einnig væri erfitt að smíða háhraðalestir úr stáli einvörðungu. Þumalputtareglan er: Að fyrir hvert 1kg af áli sem er skipt út gegn vanalegu efni í farartæki má spara 20kg af koldíoxíði á meðallíftíma farartækisins.

 

Varðandi byggingar þá hefur ál verið í framrás síðustu 40 árin vegna þess hve tæringarþolið það er, ásamt því hve auðvelt er að húða það þannig að húðin haldist út líftíma hlutarins.  Það hefur heldur ekki skaðað hversu auðvelt er að móta það við tiltölulega lágan hita.

 

Þá er ál einnig vinsælt efni í umbúðum vegna þess hversu sterkt það er, gagnsæi ekkert, og hversu auðvelt er að endurvinna það.

 

Ál má endurvinna á tiltölulega auðveldan máta með endurbræðslu.   Endurbræðslan á sér stað við hitastig í kringum 700°C í samanburði við 1500°C fyrir stál.  Við endurvinnslu þarf álíka orku til að bræða upp 1 tonn af áli og 1 tonn af stáli en hafa ber í huga, að einungis þarf 0,5 tonn af áli á móti 1 tonni af stáli til þess að hljóta sama styrk.  Því mun álið á endanum ávallt hafa vinninginn yfir heildarkolefnisfótspor hvernig sem það er unnið.

 

Sem dæmi um hversu þrautseigt og endingargott álið er má nefna, að 70% af öllu áli sem framleitt hefur verið frá upphafi er enn í notkun og eru um 8% af öllu áli sem er á heimsmarkaði er endurunnið ál. Endurvinnsla á áli er einkar hagkvæm þar sem einungis þarf um 5% af orku þeirri sem þarf til þess framleiða ál úr súráli!

 

 

Skipting notkunar á áli í Evrópu:

–      Farartæki 39%

–      Byggingar 24%

–      Umbúðir 17%

–      Íhlutir, lagnaefni ofl. 13%

–      Tölvur, símar ofl. 7%

 

Hreint ál hefur ekki styrk á við stál eitt og sér heldur þarf að bæta þar við málmum eins og kopar, sínki og magnesium til þess að fá styrkinn fram og kallast þá melmi (á ensku: alloy). 

Í steypuskála Norðuráls höfum við þróað framleiðslu á melmi, sem meðal annars er notað í bílaiðnað og byggir að mestu leyti á íblöndun á kísil í álið til að ná fram breyttum eiginleikum. Þessi framleiðsla fer vel af stað og stefnir í að verða um 50 þúsund tonn á ári.

Álið sem er framleitt hjá Norðuráli er mjög hreint og nýtist því nánast í öll melmi þ.e. frá melmum fyrir gosdósir upp í melmi fyrir geimflaugar.