Góður árangur 

  

Niðurstöður rannsókna á loftgæðum, ferskvatni, lífríki sjávar, gróðri og búfénaði staðfesta að áhrif álvers Norðuráls á lífríkið eru óveruleg.

 

Frá því Norðurál hóf rekstur á Grundartanga árið 1997 hefur farið fram ítarleg vöktun á áhrifum álversins á umhverfi sitt. Vöktunin felur í sér rannsóknir og eftirlit með um 80 mæliþáttum í og við Hvalfjörð. Rannsóknirnar eru gerðar af Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands og fleiri óháðum aðilum. Umhverfisvöktunin fer fram samkvæmt áætlun Umhverfisstofnunar fyrir árin 2012-2021.

 

Niðurstöður umhverfisvöktunar árið 2016 sýna að Norðurál er undir öllum viðmiðunarmörkum sem fyrirtækinu eru sett í starfsleyfi og reglugerðum. Þeir þættir sem voru vaktaðir á árinu 2016 eru andrúmsloft, úrkoma, ferskvatn, sjór, kræklingur, sjávarset, gras, lauf, barr, hey, sauðfé og hross.

 

Íslensk umhverfisyfirvöld gera miklar kröfur til álvera og góður árangur er ekki sjálfgefinn. Til að hann náist þarf reksturinn að vera góður og í jafnvægi sem kallar á hæfni, liðsheild og  kunnáttu starfsfólks Norðuráls og að búnaður uppfylli ströngustu gæðakröfur.

 

Niðurstöður annarra úttekta staðfesta ennfremur að umhverfisrannsóknir hjá Norðuráli eru fyrsta flokks og gefa góða mynd af áhrifum fyrirtækisins á umhverfið.

 

Umhverfisstjórnunarkerfi Norðuráls er vottað samkvæmt alþjóðlega ISO 14001staðlinum. Vottunin er liður í því að halda utan um og lágmarka umhverfisáhrif fyrirtækisins. Stöðugt endurmat og endurbætur á ferlum fyrirtækisins á sviði umhverfismála er tryggt.