Hvað er...?

 

Þynningarsvæði 

Ef reiknuð dreifing efna, t.d. frá álveri, nær settum viðmiðum, sem ýmist er að finna í íslenskum reglugerðum eða erlendum, þarf að skilgreina svokallað þynningarsvæði utan um þann ramma þar sem viðmiðunarmörkum er náð. Innan þynningarsvæðisins er leyfilegt að fara yfir tilgreind umhverfismörk. Utan svæðisins er gæðum ómengaðs lofts viðhaldið.

 

Mat á umhverfisáhrifum

Mat á umhverfisáhrifum er mat á áhrifum sem framkvæmdir kunna að hafa á umhverfið, jafnt á framkvæmda- sem og rekstrarstigi. Markmið með lögum um mat á umhverfisáhrifum er að 1) tryggja að farið hafi fram mat á umhverfisáhrifum áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmdum 2) draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda 3) stuðla að samvinnu allra hagsmunaaðila framkvæmdarinnar 4) kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda og mótvægisaðgerðir gegn þeim 5) gefa almenningi kost á að koma á framfæri athugasemdum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda liggur fyrir.  

 

Þurrhreinsivirki

Við álframleiðslu myndast bæði ryk og lofttegundir sem geta haft óæskileg áhrif á umhverfið ef þau eru í of miklum mæli. Þess vegna er nauðsynlegt að koma í veg fyrir losun þessara efna eins og frekast er kostur. Norðurál á Grundartanga beitir í þeim tilgangi þurrhreinsun á útblæstri frá álverinu og notar til þess búnað sem er hannaður samkvæmt bestu fánlegu tækni. Þessi búnaður kallast þurrhreinsivirki og eru fjögur slík starfrækt við álverið.

Allt súrál sem notað er til álframleiðslunnar fer í gegnum þurrhreinsivirkin áður en það er flutt í rafgreiningarkerin. Í þurrhreinsivirkjunum er súrálinu blandað við afgas frá kerjunum og við það bindst lofttegundin vetnisflúoríði (HF) við yfirborð súrálsagnanna. Eftir að súrálið hefur tekið upp vetnisflúoríð er talað um hlaðið eða bætt súrál. Blandan er því næst síuð og afgasið skilið frá ryki frá kerjunum og bætta súrálinu. Með þessari aðferð er meira en 99,7% af öllu vetnisflúoríði hreinsuð úr afgasinu.

Í álveri Norðuráls á Grundartanga eru fjórir samliggjandi kerskálar og eru þurrhreinsivirkin staðsett á milli hverra tveggja skála. Utan á kerskálunum liggja afsogsrör sem tengd eru við þurrhreinsivirkin. Loftmagn sem sogað er frá hverju keri er nokkurn vegin það sama og er því stýrt með stýrispjöldum á greinum afsögsröranna.

Þurrhreinsivirkin eru misstór en öll fjögur eru hönnuð þannig að hægt er að taka einstakar súeiningar úr umferð án þess að stöðva rekstur virkisins. Með því móti er hægt að sinna viðhaldi á þurrhreinsivirkjunum án þess að raska hreinsun á afgasinu. Afsogsblásarar við hvert virki eru nægilega margir til að 80% af fullum afköstum viðhaldast þó svo einn stöðvist.

Þurrhreinsivirkjunum er stjórnað með stýritölvum og rekstrarstöðu virkjanna hverju sinni má skoða á tölvuskjá. Stýritölvurnar skrá helstu rekstrarþætti í gagnagrunn. Skráð gögn eru m.a. notuð til að vinna upplýsingar um loftmagn, hreinsivirkni og losun efna í umhverfið.