Flúor

 

Þegar bráðið krýólít (Na3AlF6)í raflausn rafgreiningarkerjanna kemst í snertingu við rakt loft (H2O) myndast vetnisflúoríð (HF).  Vetnisflúoríðið berst með afgasi frá kerjunum Í þurrhreinsivirkin þar sem því er blandað við súrál.   Vetnisflúoríðið bindst við yfirborð súrálsagnanna og er > 99,7 % af öllu vetnisflúoríði hreinsað úr afgasinu með þessum hætti.

 

Flúor finnst víða í náttúrunni bæði í bergi og uppleyst í sjó.  Það myndar torleyst sölt með málmum og er því í lágum styrk í hafinu.  Flúor í of miklum mæli getur haft skaðleg áhrif á gróður og dýralíf en helsta leið flúors inn í lífríkið er á formi vetnisflúoríðs.

 

Vel er fylgst með áhrifum iðnaðarsvæðisins á Grundartanga á nánasta umhverfi .  Mælingar á vetnisflúoríði í andrúmslofti, styrk flúors í gróðri og sauðfé ásamt  styrk flúoríðs í árvatni eru hluti af þeirri vöktun.  Niðurstöður vöktunarmælinga og viðmiðunarmörk má finna í vöktunarskýrslum.