Brennisteinsdíoxíð (SO2)

 

Forskaut rafgreiningarkerjanna innihalda brennistein (S) sem myndar brennisteinsdíoxíð (SO2) við bruna í súrefni (O2). Brennisteinsdíoxíð bindst ekki við súrál og er því ekki hreinsað úr afgasi frá kerjunum í þurrhreinsivirkjum álversins.

 

Brennisteinsdíoxíð er mögulegt að hreinsa úr útblæstrinum með svokallaðri vothreinsun en þeirri aðferð hefur ekki verið beitt í álverum á Íslandi. Vothreinsun kemur í veg fyrir að brennisteinsdíoxíð berist í andrúmsloftið en í staðinn er það leyst upp í vatni og berst í viðtaka eins og stöðuvötn og sjó.

 

Allt jarðefnaeldsneyti inniheldur brennistein og því myndast meginhluti þess brennisteinsdíoxíðs sem lendir af manna völdum í andrúmsloftinu við bruna á kolum og olíuafurðum. Brennisteinsdíoxíð í andrúmsloftinu kemur einnig frá náttúrulegum uppsprettum eins og t.d. jarðhitasvæðum.

Brennisteinsdíoxíð í andrúmsloftinu er helsta ástæðan fyrir súru regni sem getur haft í för með sér gróðureyðingu og skemmdir á mannvirkjum.

 

Vel er fylgst með áhrifum iðnaðarsvæðisins á Grundartanga á nánasta umhverfi og eru mælingar á brennisteinsdíoxíði í andrúmslofti og brennisteini í árvatni hluti af þeirri vöktun. Niðurstöður vöktunarmælinga og viðmiðunarmörk má finna í vöktunarskýrslum.